Forritunarkeppni TM Software 2008 var haldin á dögunum á meðal nemenda í háskólanámi. Forritunarkeppnin fór fram á vefnum og höfðu þátttakendur viku til að forrita lausn og skila inn. Þrautin var nokkuð strembin og skráðu sig alls 42 nemendur til leiks en einungis 12 skiluðu inn lausn, segir í fréttatilkynningu.

Glæsileg verðlaun voru í boði fyrir réttu lausnina; 150.000 fyrir 1.sæti, 100.000 fyrir 2.sæti og 50.000 fyrir 3.sæti. Þrautin fólst í því að varpa XML skjölum í sql skipanir með aðstoð XSLT. Við yfirferð á lausnum var tekið mið af því hversu snyrtilegur kóðinn var, hvort lausnin uppfyllti settar kröfur, hversu vel lausnin var skjöluð, hvort einhverjar viðbætur voru til staðar og hvort lausnin væri auðveld í notkun.

Kári Hreinsson nemandi við Háskóla Íslands hreppti 1.sætið, Sigurður Jónsson samnemandi hans 2.sætið og 3.sæti hreppti Guðmundur Bjarni Ólafsson sem er við nám í Tækniháskólanum í Danmörku.  Í heildina litið voru innsendar lausnir mjög góðar og erfitt var að gera upp á milli þeirra. Flestir sem skráðu sig til leiks voru frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Akureyri en ef tekið er mið af því að nemendur séu við nám í tölvunarfræði þá tóku 30% nemenda við Háskólann á Akureyri þátt, 16% nemenda við Háskóla Íslands og 8% nemenda við Háskólann í Reykjavík.

TM Software er í eigu Nýherja.[ NYHR ]