Nýr formaður stjórnar RÚV er Kári Jónasson, fyrrverandi fréttastjóri Ríkisútvarpsins og ritstjóri Fréttablaðsins en ný stjörn RÚV var skipuð á aðalfundi á mánudaginn.

Kári hóf störf hjá tímaritum Sambands íslenskra samvinnufélaga árið 1962 og var blaðamaður og ljósmyndari á Tímanum 1963-1973. Hann hóf störf á fréttastofu Útvarpsins árið 1973, var varafréttastjóri frá 1980 og fréttastjóri frá árinu 1987. Kári var síðan ritstjóri Fréttablaðsins á árunum 2004-2007. Hann hefur m.a. starfað sem leiðsögumaður síðustu ár.

„Ég tel mjög mikilvægt fyrir okkur að eiga sterkt og gott Ríkisútvarp, líkt og er í mörgum öðrum löndum sem við miðum okkur við. Það þarf að fylgja straumi tímans og þjóna bæði ungum og öldnum. Ríkisútvarpið er ekki húsið í Efstaleiti heldur fólkið sem þar vinnur, og að því þurfum við hlúa sem best. Jafnframt sterku Ríkisútvarpi þurfum við á traustum og góðum einkamiðlum að halda, öflugum dagblöðum, auk útvarps- og sjónvarpsstöðva af öllum stærðum og gerðum, vefmiðlum, að ógleymdum landsbyggðarmiðlum, bæði ljósvaka-, prent- og vefmiðlum,“ er haft eftir Kára í fréttatilkynningu.

Aðrir stjórnarmenn eru:  Ragnheiður Ríkharðsdóttir varaformaður, Mörður Árnason, Jón Ólafsson, Guðlaugur Sverrisson, Brynjólfur Stefánsson, Lára Hanna Einarsdóttir, Elísabet Indra Ragnarsdóttir og Birna Þórarinsdóttir. Varamenn eru: Jón Jónsson, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Erlingur Sigurðarson, Sigríður Valdís Bergvinsdóttir, Sjöfn Þórðardóttir, Mörður Ingólfsson, Marta Guðrún Jóhannesdóttir, Björn Gunnar Ólafsson og Jóhanna Hreiðarsdóttir.