*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 28. maí 2020 11:36

Kári mættur í Stjórnarráðið

Eftir að hafa gagnrýnt heilbrigðisráðherra í gær er forstjóri ÍE nú mættur til fundar með stjórnvöldum.

Ritstjórn
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Haraldur Guðjónsson

Kári Stefánsson sagði í viðtalið við Viðskiptablaðið í gær að Íslensk erfagreining myndi ekki skima ferðamenn og að Svandís Svavarsdóttir heilbrgðisráðherra hegðaði sér eins og hún sé sjö ára. Frétt þessa efnis birtist á vef Viðskiptablaðsins klukkan rúmlega sjö í gærkvöldi og seinna var Kári í viðtali í Kastljósinu þar sem hann bar fram sömu gagnrýni. Fréttablaðið greindi frá því fyrir stundu að Kári sé nú mættur á fund í Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu.

Ummæli Kára hafa vakið mikla athygli en hann er hneykslaður yfir því að Svandís hafi ekki þakkað starfsfólki Íslenskrar erfaðgreningar (ÍE) fyrir sín störf í heimsfaraldrinum á síðasta upplýsingafundi þríeykisins.

Í Kastljósi RÚV á þriðjudaginn sagði Svandís að hugsanlega þyrfti að komast að samkomulagi við Íslenska erfðagreiningu um greiningu sýna úr ferðamönnum til að koma verkefninu af stað. Kári segist fyrst hafa heyrt af þessu þegar hann horfið á Kastljósþáttinn.

„Þetta eru ekki beinlínis heilbrigð samskipti,“ sagði Kári í viðtali við Viðskiptablaðið í gær. Þá sagðist hann ennfremur útiloka samstarf við heilbrigðisyfirvöld um skimun á ferðamönnum. „Við ætlum ekki á neinn máta að taka þátt í aðferð sem okkur líst ekkert á. En ég vona heitt og innilega að þetta gangi vel hjá þeim."

Uppfært klukkan 12.11:
Eftir hálftíma fund sagði Kári í samtali við Fréttablaðið að líklega myndi Íslensk erfðagreining koma að skimun ferðamanna þegar landið verður opnað 15. júní.