Íslensk erfðagreining mun, til að byrja með, taka þátt í að skima og greina sýnin sem tekin verða af ferðamönnum við opnun landamæra. Þetta kom fram á blaðamannafundi forsætisráðherra, í Raðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Eins og Viðskiptablaðið hafði fjallað um hafði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE), áður gefið það út að ÍE hygðist ekki taka þátt í verkefninu.

Tíu skimunarbásar verða settir á Keflavíkurflugvöll og áætlað er að hægt verði að anna 200 farþegum á klukkustund. Miðað er við að hægt sé að taka 2.000 sýni á sólarhring og því ekki hægt að koma með fleiri farþega á dag, það viðmið verður sennilega út júlímánuð. Sýni verða tekin þegar farþegar koma en þau sýni sem koma eftir klukkan 19 verða að bíða greiningar til morguns.

Að auki hefur komið fram að erlend vottorð um að viðkomandi sé veirufrír verði ekki tekin gild. En eins og annað í ferlinu er það til sífelldrar endurskoðunar.

Enn fremur var sagt frá því að stefnt verður á 500 manna hámarksfjölda í samkomum 15. júní næstkomandi, samanborið við 200 sem nú er í gildi.