Réttlætanlegt er að leggja refsiskatta á slitatjórnir föllnu bankanna til að fjármagna heilbrigðiskerfið, að sögn Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Hann var gestur í Kastljósinu í RÚV í kvöld ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra, Eygló Ingadóttur, formanni Hjúkrunarráðs Landspítalans, og Anna Gunnarsdóttur, formanni Læknaráðs. Í þættinum var jafnframt rætt við Páll Matthíasson, sem í vikunni tók við starfi forstjóra Landspítalans af Birni Zoega. Umræðuefni þáttarins var niðurskurður á fjárlögum til Landspítalans og heilbrigðisþjónustunnar.

Björn Zoega sagði starfi sínu lausu vegna þess sem hann sagði fyrirhugaðan niðurskurð til Landspítalans. Páll hefur jafnframt gagnrýnt fjárlagafrumvarpið sem kynnt var í vikunni og sagt ekki lengra gengið í niðurskurði til heilbrigðisþjónustunnar.

Ekki hægt að byggja hátæknisjúkrahús

Kári sagði ótækt að búa í samfélagi þar sem ekki sé hlúð að þeim sem eru meiddir og þeim sem eru lasnir. Það sagði hann Kristján hafa gert sér grein fyrir áður en hann settist í ráðherrastól.  Hann undraðist því breyttan tón ráðherra.

„Mér finnst að ráðherrar í þessari nýju ríkisstjórn hafi sömu tilhneigingu og menn hafa gjarnan haft þegar þeir koma inn í þessa ráðherrastóla, þeir leggjast í koju þeirra sem undan þeim gengu, alveg sama þó þær séu hlandblautar, þeir taka upp vitleysuna frá þeim, halda áfram að tjá raunverulega sömu skoðanir að við höfum ekki efni á heilbrigðisþjónustunni,“ sagði Kári og ítrekaði að Íslendingar hafi efni á að fjármagna heilbrigðisþjónustuna þótt ekki sé til fjármagn til að reisa nýtt hátæknisjúkrahús og koma rekstri Landspítalans undir eitt þak:

„Við getum ekki setið hér bæði og kvartað yfir því að við höfum ekki tæki og við höfum ekki starfsfólk, á sama tíma og við reynum að ýta í gegn framkvæmd sem kostar 50 til 100 milljarða. Ég held því fram að við þurfum að nýta þá aðstöðu sem við höfum í dag, það húsnæði sem við höfum í dag, til að hýsa ný tæki og hýsa meira fólk. Og ég vil enda á því að segja að það er ýmislegt í þessu, hæstvirtur heilbrigðismálaráðherra, sem að bendir til þess, að það sé svolítið við og hinir. Ég hef það svolítið á tilfinningunni að þetta fjárlagafrumvarp hafi verið sett saman af litlum strákum í stuttbuxum sem eru að spila Matadorleik."