Tilkynnt hefur verið að Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og rannsóknaprófessor við Læknadeild, hljóti hin virtu Anders Jahre verðlaun árið 2009 fyrir framlag sitt til rannsókna í mannerfðafræði, ekki síst tengingu erfðabreytinga við sjúkdóma á borð við krabbamein, sykursýki, kransæðastíflu og geðklofa.

Um þetta er fjallað á vef Háskóla Íslands (HÍ) en þar segir að rannsóknir Kára og samstarfsmanna hans hafi skapað honum alþjóðlega virðingu á sviði mannerfðafræði.

Anders Jahre verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 1960 fyrir framúrskarandi rannsóknir á sviði læknisfræði og eru verðlaunin þau stærstu sem veitt eru vegna rannsókna í líf- og læknisvísindum sem unnar eru á Norðurlöndum.

Þá kemur fram að verðlaunin eru veitt árlega. Í verðlaun hlýtur Kári 1 milljón norskra króna.

Kári er fyrsti Íslendingurinn sem hlýtur aðalverðlaun Anders Jahre sjóðsins fyrir vísindaframlag sem unnið er hér á landi. Áður hefur Karl Tryggvason prófessor í Stokkhólmi hlotið aðalverðlaun Anders Jahre sjóðsins.

Sjá nánar á vef HÍ.