„Ég hélt að ég hefði ekki farið með neinar staðreyndavillur aðrar en þær að ég talaði líklega um of há laun hjá ræstingakonunni sem vinnur hjá mér." Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar inntur eftir viðbrögðum við leiðréttingu Viðskiptaráðs á ummælum Kára um mun á fjármagnstekju- og almennum tekjuskatti.

Í þættinum Ferð til fjár á RÚV hélt Kári því fram að sér þætti skattkerfið hér á landi ekki nógu réttlátt. Hann greiði 20% fjármagnstekjuskatt á sama tíma og einstaklingur með 375 þúsund krónur í mánaðarlaun greiði 40% tekjuskatt af launum sínum. Viðskiptaráð sendi af því tilefni leiðréttingu á ummælum Kára.

„Það er grundvallarmarkmið að Íslendingar búi við skattkerfi sem hefur sem minnst neikvæð áhrif á lífskjör einstaklinga og sem breiðust sátt ríkir um. Til að svo megi verða þarf umræða um stefnu í skattamálum hins vegar að byggja á staðreyndum. Þegar litið er til þeirra má sjá að skattbyrði einstaklinga er þyngri eftir því sem tekjur þeirra eru hærri. Fullyrðingar um annað standast ekki nánari skoðun," segir í tilkynningu Viðskiptaráðs.

Viðskiptaráð reyni að snúa út úr

„Þetta er tilraun til þess að fela sig í smáatriðum. Staðreyndin er sú að fjármagnstekjur eru skattlagðar mun minna heldur en aðrar tekjur," segir Kári um tilkynningu Viðskiptaráðs. „Ég get fallist á að Viðskiptaráð hafi örugglega rétt fyrir sér þegar kemur að þessum smáatriðum og ég er ekki í nokkrum vafa um það. Ef ég hef farið rangt með smáatriði þá biðst ég afsökunar á því," segir hann.

Hann telur jafnframt að óréttlátt sé að leggja misháan skatt á sparnað og fjárfestingar fólks annars vegar og tekjur hinsvegar og að slíkt stuðli að ójöfnuði í samfélaginu. „Þegar maður horfir á þetta frá sjónarhorni jafnréttis og réttlætis í samfélaginu, þá held ég að það sé ekkert erfitt að komast að þessari niðurstöðu sem ég var að reyna að tjá í þessum þætti í gær, að það ef menn hugsa fyrst og fremst um réttlætið þá væri það svolítið ljótt að þeir sem hafa miklar tekjur af eigum borgi tiltölulega lítil opinber gjöld af þeim en hinsvegar þeir sem hafi litlar tekjur af vinnu sinni og eiga engar eigur, að þeir skuli borga tiltölulega hærri skattprósentu. Þetta er bara spurning um það hvernig menn hugsa um réttlæti almennt í samfélaginu," segir hann.

Vont fyrir þá sem vilja ekki efnast

„Ég held því fram að þetta skipulag viðhaldi og jafnvel auki muninn á þeim sem eiga og eiga ekki. Frá sjónarhorni okkar sem finnst að sá munur eigi að vera lítill, þá er þetta ekki hentugt. Frá sjónarhorni þeirra sem líta svo á að munurinn eigi að vera mikill, þá er þetta náttúrulega mjög gott kerfi. Þetta er bara spurning um verðmætamat og hverskonar samfélag menn vilja sjá. Ef menn sjá samfélag þar sem munurinn er mikill þá er þetta ágætis skattlagning og ágætis aðferð til að gera það. Ég reikna með að allflestir þeirra sem eiga mikið fé líti svo á að þetta sé gott og allflesta þá sem langar til að eignast mikið fé líta á þetta sem gott, því þeir muni enda einhverntímann þarna uppi á toppnum," segir Kári.

Aðspurður hvort hann vildi gera breytingar á fyrirkomulagi skattheimtu segir Kári: „Ég hef engar sérstakar tillögur um þetta en þegar menn eru að velta fyrir sér skattlagningu og mun á þeim sem eiga og eiga ekki í samfélaginu og efnahagslegu réttlæti, þá held ég að þetta sé svo sannarlega einn af þeim póstum sem menn eiga að skoða. Kannski að því skoðuðu máli þá kemur í ljós að ég hef að vanda rangt fyrir mér þá er það bara fínt. Þá gátu menn að minnsta kosti leyst gátuna."