Fréttaveitan NBC birti í morgun umfjöllun um Íslendinga og hið undarlega langlífi sem landsmenn virðast margir hverjir njóta. Í fréttinni er rætt við Stefán Þorleifsson, 99 ára gamlan mann frá Neskaupsstað sem fær sér sundsprett hvern einasta morgun. Því næst víkur sögunni að Kára Stefánssyni, stofnanda DeCode.

„Það er enginn Guð, það er bara DNA,“ er haft eftir Kára í viðtalinu. „Það er ýmislegt sem við erum fær um að gera, en við verðum að vera meðvituð um að við erum alltaf að berjast við okkur sjálf, til þess að koma í veg fyrir að erfðafræðileg örlög okkar verði að raunveruleika.“

Kára finnst ólíklegt að umrætt langlífi stafi af miklu öðru en harðgeru erfðamynstri Íslendinga - umhverfið eða mataræðið komi þá lítið sem ekkert við sögu. Deoxýríbósakjarnsýrur skipti þá talsvert meira máli en 'frjáls vilji'.

„Það er líklega vegna sögu erfðaefnis Íslendinga [sem þeir eru langlífir],“ segir Kári. „Ég efast um að það hafi nokkuð með hreint loft, ferskt vatn eða fiskinn sem við borðum. Fremur held ég að það hafi allt að gera með það hvaða fólk ákveður að eignast börn.“

„Heilinn í þér hefur verið fastmótaður af erfðaefni þínu. Erfðaefnið ákveður að miklu leyti hvað þú gerir og hvernig þú gerir það. Svo frjáls vilji spilar aðeins smátt hlutverk. Það er enginn Guð, það er aðeins DNA.“