Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun dæmdur til að greiða verktakafyrirtækinu Elmax 880 þúsund krónur vegna vangreiddra reikninga, að því er fram kemur á Vísi . Kári þarf einnig að greiða 1,2 milljónir í málskostnað.

Kári hafði áður verið dæmdur í héraði til að greiða Elmax, sem kom að byggingu einbýlishúss hans, 1,1 milljón króna vegna vangoldinna reikninga. Kári áfrýjaði þeim dómi til Hæstaréttar, sem komst að þeirri niðurstöðu að vegna flókinna málsaðstæðna hefði átt að boða menn með sérþekkingu fyrir dóminn. Sérfróðir meðdómsmenn, rafmagnstæknifræðingur og rafvirkjameistari, kváðu því upp dóminn í morgun ásamt héraðsdómara.