Karl Garðarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar, sem í síðustu viku keypti DV, DV.is, Eyjuna, Pressuna, Bleikt, Birtu, Doktor.is, 433.is og sjónvarpsstöðina ÍNN. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Karl mun bera ábyrgð á daglegum rekstri allra miðla Frjálsrar fjölmiðlunar, en stefnt er að því að efla starfsemi félagsins til muna á næstu misserum. Í síðustu viku keypti útgáfufélagið Frjáls fjölmiðlun rekstur fjölmargra fjölmiðla af Pressunni og dótturfélögum hennar. Kaupverðið var vel á sjötta hundrað milljónir króna og var greitt með reiðufé og yfirtöku skulda. Frjáls fjölmiðlun er að fullu í eigu Sigurðar G. Guðjónssonar, hæstaréttarlögmanns og fyrrverandi forstjóra Norðurljósa.

Þá var Karl einn stofnenda, framkvæmdastjóri og ritstjóri Blaðsins/24 stunda, sem síðar var selt til Árvakurs hf. Karl og Sigurður áttu saman útgáfufélagið Ár og Dagar, sem gaf út Blaðið. Hann var útgáfustjóri prentmiðla Árvakurs um tíma. Karl var kjörinn alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn árin 2013 til 2016 og formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins á sama tíma.

Karl er með M.L gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og M.A gráðu í fjölmiðlafræði frá Minnesota háskóla. Þá er hann með B.A gráðu í Almennri bókmenntafræði og ensku frá Háskóla Íslands, auk diplomagráðu í viðskipta og rekstrarfræði.