Karl Jóhann Jóhannsson hefur verið ráðinn aðstoðarframkvæmdastjóri Flügger á Íslandi frá og með 1. apríl sl. Karl Jóhann mun sinna almennum stjórnunarstörfum hjá Flügger ásamt fjármálastjórn, starfsmannamálum og markaðsmálum, segir í tilkynningu.

Markaðsmál fyrirtækisins eru unnin í nánu samstarfi við aðalstöðvarnar í Danmörku en Flügger er með yfir 520 verslanir um allan heim.

Karl Jóhann er með MBA frá Háskólanum í Reykjavík og mastersgráðu (M.Sc.) frá Demarks Technical University með höfuðáherslu á skipulagningu og stjórnun fyrirtækja. Eftir nám í Danmörku starfaði hann að ýmsum sérverkefnum til ársins 1999.

Karl Jóhann starfaði hjá SET á Selfossi sem gæðastjóri frá 1999 til 2000 en það ár tók hann til starfa hjá Íslandssíma og var þátttakandi í því að byggja fyrirtækið upp sem síðan var sett á markað. Karl Jóhann var gæðastjóri hjá Íslandssíma ásamt því að sinna ýmsum sérverkefnum. Frá árunum 2002 til 2006 vann hann sem ráðgjafi á sviði stefnumótunar, gæðamála og viðskiptatengsla hjá Opnum kerfum. Karl Jóhann er kvæntur Guðbjörgu Kr. Ingvarsdóttur skartgripahönnuði og eiga þau tvær dætur.