Karl K. Karlsson ehf. hefur valið Skyggni til þess að vista upplýsingakerfi fyrirtækisins að því er kemur fram í tilkynningu Skyggnis.

Samningurinn felur í sér vistun og daglegan rekstur á öllum upplýsingakerfum Karls K. Karlssonar, bæði á miðlægum kerfum sem og tölvubúnaði á skrifstofum fyrirtækisins í Reykjavík og á Akureyri.

Hjá Karli K. Karlssyni starfa um 25 manns en fyrirtækið er eitt af öflugustu innflutningsfyrirtækjum landsins í mat- og drykkjarvöru.

Edda Bjarnadóttir framkvæmdastjóri Karls K. Karlssonar segir að markmiðið með því að útvista upplýsingakerfum fyrirtækisins sé að hagræða, auka öryggi og tryggja aðgengi að sérfræðiþjónustu.

„Við höfum hingað til rekið okkar eigið kerfisrými en nú viljum við breyta því og færa öll okkar kerfi inn í kerfisveitu í öruggu umhverfi hjá Skyggni. Í kerfisveitunni á Skyggnir allan vélbúnaðinn og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af fjárfestingum í netþjónum og slíkum búnaði. Skyggnir velur hagstæðasta umhverfið og samnýtir vélbúnað og hugbúnað okkur til hagsbóta.”

Edda segir að rekstur upplýsingakerfa sé ekki sérsvið Karls K. Karlssonar og með samningi við Skyggni geti fyrirtækið einbeitt sér að sínu sérsviði, sem er innflutningur á m.a. ýmsum drykkjarvörum, áfengi, mat- og hreinlætisvörum.

„Með samningnum höfum við þegar náð að lækka verulega okkar föstu mánaðargjöld til tölvumála og þar með mun samningurinn strax stuðla að sparnaði í rekstri tölvukerfa. Auk þessa ber Skyggnir nú alfarið ábyrgð á rekstri upplýsingakerfanna og léttir um leið þeirri ábyrgð af okkar fólki sem er mjög jákvætt“.

Sigurður Arnar Ólafsson, sölu- og viðskiptastjóri, hjá Skyggni segir að sífellt fleiri fyrirtæki geri sér grein fyrir kostum þess að vista upplýsingakerfi sín hjá hýsingarfyrirtækjum eins og Skyggni.

„Reynslan sýnir að fyrirtæki geta sparað sér tugi prósenta í kostnað með því að setja upplýsingakerfin í vistun í stað þess að eiga þau og reka sjálf. Viðskiptavinirnir fá þannig hærra þjónustustig og einungis fastan og fyrirsjáanlegan kostnað.

Skyggnir sérhæfir sig í hýsingu og rekstri tölvukerfa og lausnum sem auka áreiðanleika, lækka kostnað og bæta eiginleika upplýsingakerfa fyrir fyrirtæki og stofnanir auk þess að bjóða öfluga þjónustu í net- og samskiptalausnum.