Innflutnings- og heilsölufyrirtækið Karl K. Karlsson tapaði tæplega fimmtán milljónum króna árið 2013 samkvæmt ársreikningi. Tapið árið á undan nam rúmum 23 milljónum. Eignir fyrirtækisins námu 358,9 milljónum í árslok 2013, en þær höfðu minnkað um rúmlega 40 milljónir milli ára. Eigið fé nam 1,8 milljónum króna eftir að tap hafði verið jafnað og skuldir námu 357 milljónum króna. Handbært fé í árslok var rúmar 4,2 milljónir króna.

Fram kemur í ársreikningnum að gengið hafi verið frá samkomulagi um uppgjör á eftirstöðvum láns félagsins við Byr sparisjóð og að jafnframt hafi verið gert samkomulag við slitastjórn Landsbankans um kröfur vegna afleiðusamninga. Tillit var tekið til beggja þessara þátta í ársreikningnum. Margrét Stefánsdóttir er stærsti hluthafi félagsins, á 71,7% en Rann ehf. á 25,8%. Aðrir hluthafar eiga innan við prósent.