*

laugardagur, 24. júlí 2021
Fólk 27. apríl 2018 08:28

Karl leiðir framboð Viðreisnar með Neslista

Viðreisn og Neslisti vinstriflokkanna bjóða fram sameiginlegan lista í bæjarstjórnarkosningunum á Seltjarnarnesi.

Ritstjórn
Sameiginlegt framboð Viðreisnar með Neslistanum, sameiginlegu framboði vinstriflokkanna á Seltjarnarnesi.
Aðsend mynd

Karl Pétur Jónsson fyrrum aðstoðarmaður Þorsteins Víglundssonar, leiðir sameginlegan lista Viðreisnar/Neslista á Seltjarnarnesi. Hildigunnur Gunnarsdóttir er í öðru sæti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft meirihluta í sveitarfélaginu í 68 ár, en Neslistinn, sameiginlegt framboð vinstriflokkanna í bænum, fær nú Viðreisnarfólk til liðs við sig fyrir kosningarnar sem fara fram eftir mánuð.

Efstu tvö sæti listans skipa Karl Pétur Jónsson, varabæjarfulltrúi og fyrrum aðstoðarmaður ráðherra Viðreisnar, og Hildigunnur Gunnarsdóttir, námsráðgjafi við Kvennaskólann.

Karl Pétur Jónsson er fæddur í Kópavogi árið 1969. Hann hefur BA gráðu í stjórnmálafræði og meistaragráðu í viðskiptafræði. Hann var aðstoðarmaður Þorsteins Víglundssonar félags- og jafnréttismálaráðherra í síðustu ríkisstjórn, en hefur starfað sem ráðgjafi og hefur reynslu af stjórnmálum bæði sem þátttakandi og ráðgjafi.

Hann hefur starfað að bæjarmálum á Seltjarnarnesi sem varabæjarfulltrúi og fulltrúi í skólanefnd og jafnréttisnefnd. Hann hefur verið virkur í foreldrastarfi í Gróttu, í skóla- og leikskólastarfi allt frá því hann flutti á Nesið fyrir 12 árum. Karl Pétur var aðstoðarmaður félags- og jafnréttismálaráðherra og starfað sem ráðgjafi og framkvæmdamaður á sviði stjórnmála, atvinnulífs og menningarmála.

Karl Pétur er kvæntur Guðrúnu Tinnu Ólafsdóttir rekstrarstjóra Fríhafnarinnar og eiga þau fimm börn á aldrinum sex til tuttugu ára. Þau búa á Barðaströnd 5.

Hildigunnur Gunnarsdóttir er 59 ára menntunarfræðingur. Hún hefur lengi starfað sem framhaldsskólakennari, verkefnastjóri og náms- og starfsráðgjafi við Kvennaskólann í Reykjavík. Hildigunnur var einn af stofnendum fimleikadeildar Gróttu og fyrsti formaður deildarinnar 1986. 

Síðasta kjörtímabil var Hildigunnur varabæjarfulltrúi, fulltrúi í skólanefnd og öldungaráði og varafulltrúi í íþrótta- og
tómstundaráði. Hún hefur starfað að bæjarmálum frá árinu 2004 og auk ofangreindra nefnda setið í janfréttisnefnd.

Hildigunnur er gift Ásbirni Jónssyni framkvæmdastjóra og eiga þau þrjú börn. Hildigunni er umhugað um fagmennsku í stjórnssýslu, menntamál, málefni barna, unglinga og ungmenna, íþróttir og lýðheilsu og málefni eldri Nesbúa.

Í sætum 3 – 5 á lista Viðreisnar/Neslista sitja:

  • 3. Björn Gunnlaugsson, kennari og verkefnastjóri hjá Kópavogsbæ
  • 4. Rán Ólafsdóttir, laganemi
  • 5. Oddur J. Jónasson, þýðandi
  • 6. Margrét Hugrún Gústavsdóttir, blaðamaður
  • 7. Ragnar Jónsson, rannsóknarlögreglumaður

Helstu baráttumál Viðreisnar/Neslista er lýðræði og að auka metnað í þjónustu við bæjarbúa.