Karl Pétur Jónsson, sem hefur stýrt kynningarmálum Askar Capital og haft umsjón með fjárfestingarverkefnum í fasteignaþróun, mun láta af störfum hjá fyrirtækinu.

Í bréfi til samstarfsmanna sinna kveðst hann vilja beina kröftum sínum í annan farveg, þar sem hann hafi meiri stjórn á framvindu mála.

„Tryggvi Herbertsson leitaði til mín snemma árs 2007 og óskaði eftir því að ég kæmi til liðs við Askar Capital og tæki að mér áhugavert hlutverk í uppbyggingu bankans. Fyrir mér var þetta tækifæri til að verða einn frumherjanna í uppbyggingu á glæsilegu, alþjóðlegu fyrirtæki sem að lokum myndi lifa okkur öll. Askar Capital virtist á þessum tíma vera staður þar sem stórir draumar gætu ræst,” segir Karl Pétur í bréfinu..

Mikil áskorun framundan á hörðum markaði

Hann segir ljóst að nýr fjárfestingarbanki hafi vart getað farið af stað á verri tíma en í byrjun árs 2007. Engu að síður hafi starfsfólk bankans náð ágætum árangri á ýmsum sviðum.

„Það liggur fyrir að Askar Capital stendur frammi fyrir mikilli áskorun á komandi vetri, að treysta fótfestu bankans á mörkuðum þar sem baráttan hefur aldrei verið harðari,” segir Karl Pétur.

Hann kveðst þó vona eftir því að eftir fyrstu erfiðu rekstrarár Askar geti hann á komandi árum horft til baka með stolti yfir að hafa verið þáttakandi í upphafskrefum þess.

Á árunum 2002-2006 var Karl Pétur framkvæmdastjóri Inntaks ehf., sem annaðist ráðgjöf í almennatengslum fyrir fjölmörg fyrirtæki, síðan var hann ráðinn fulltrúi forstjóra Dagsbrúnar, áður en hann fór til starfa hjá Askar Capital. Hann er stjórnmálafræðingur að mennt og MBA frá Háskólanum í Reykjavík.