Hér á landi er mikið af heiðvirðu og samviskusömu fólki sem hefur góðar tekjur. En landið verður líklega aldrei aftur útungunarstöð milljarðamæringa eins og fyrir hrun. Þetta segir fjárfestirinn Karl Wernersson. Hann bendir á að takist Íslendingum að sýna umheiminum fram á að þeir hafi lært af fyrri mistökum þá muni erlendir fjárfestar öðlast tiltrú á landinu á nýjan leik.

Bloomberg-fréttaveitan ræðir við Karl í tengslum við umfjöllun um íslenska milljarðamæringa á árum áður. Í umfjölluninni er rifjað upp að hann hafi verið á meðal ríkustu Íslendinga fyrir hrun og hafi auður hans verið metinn á um einn milljarð dala árið 2007, jafnvirði tæpra 130 milljarða króna á gengi dagsins. Þá segir að veldi hans hafi hrunið þegar Milestone fór í þrot árið 2009 og tengist hann sex riftunarmálum af átta sem skiptastjóri þrotabúsins hefur höfðað.

Karl segir í samtali við Bloomberg að þótt hann telji landið ekki ala af sér milljarðamæringa eins og á árunum þá sé það ekki endilega slæmt. Hann telur efnahagslífið engu að síður á réttri leið og vöxturinn hóflegur. Það er jákvætt fyrir alla, að mati Karls Wernerssonar.