Fyrirtaka er í átta málum tengdum þrotabúi Milestone, fjárfestingarfélagi bræðranna Karls og Steingríms Wernerssona, í sal 202 í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudag. Grímur Sigurðsson, skiptastjóri þrotabúsins tekst þá á við sex lögmenn þeirra Karls, Steingríms, Ingunnar Wernersdóttur, félaganna Máttur og Sáttur, lögmanni Guðmundar Ólason, fyrrverandi framkvæmdastjóra Milestone og fleirum.

Málin tengjast öll öll riftun á viðskiptatengdum gjörningum á árunum fyrir hrun, s.s. lánveitingum Milestone til félags Karls og Steingríms vegna kaupa þeirra á Lyfjum og heilsu, sölu Ingunnar Wernersdóttur á hlut hennar í Milestone og lánveitinga tengdum kaupum Háttar, félagi Karls, á hrossaræktunarbúinu Feti í apríl árið 2007. Milestone er sagt hafa greitt útborgun fyrir búið í nafni Karls, 225 milljónir króna.

Blásið til fyrirtöku

Fyrirtaka er í fyrsta máli þrotabúsins í Héraðsdómi Reykjavíkur gegn Karli Wernersyni hefst klukkan 13:15 í sal 202. Lögmaður Karls er Ólafur Eiríksson. Hann er jafnframt lögmaður Hrossaræktunarbúsins Fet fyrir austan fjall og Lyfja og heilsu.

Tuttugu mínútum eftir fyrirtöku í fyrsta málinu og fjórum málum síðar kemur Jóhannes Ársælsson inná fyrir Ólaf. Grímur Sigurðsson mun sitja áfram í sal 202 þegar fyrirtaka verður í máli þrotabúsins gegn Fjárfestingarfélaginu Mætti.

Fyrirtökur í málunum taka fimm mínútur hver. Samkvæmt því tekur Sigmundur Hannesson við í fyrirtöku á máli þrotabús Milestone gegn Steingrími Wernerssyni.

Þegar klukkuna vantar stundarfjórðung í tvö á miðvikudag bætast þeir Sigurður G. Guðjónsson og Helgi Sigurðsson í hópinn þegar mál þrotabúsins gegn Ingunni, Karli og Steingrími Wernersbörnum og Guðmundi Ólasyni verður tekið fyrir. Þar mun Grímur mæta fjórum lögmönnum.

Það gerir hann aftur fimm mínútum síðar í fyrirtöku þrotabúsins gegn félaginu Sáttur, Karli, Steingrími og Guðmundi. Ingunn og lögmaður hennar hverfa þá á braut.

Samkvæmt dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur lýkur málunum klukkan 13:55.