Þeir eru í aðalhlutverki útrásarvíkingarnir í dómsölum í vikunni. Jón Ásgeir Jóhannesson og kona hans Ingibjörg Pálmadóttir tengdust fjölda mála sem tekin voru á dagskrá í síðustu viku. Ekki náðist að taka öll málin fyrir því nokkur þeirra drógust inn í þessa viku.

Segja má að Karl Wernersson, gjarnan kenndur við Milestone, hafi stigið inn í sviðsljósið í Héraðsdómi Reykjavíkur þessa vikuna eftir að Jón Ásgeir hvarf úr því.

Þriðjudagur

Á morgun verður fjöldi riftunarmála þrotabús fjárfestingarfélagsins Milestone gegn Karli tekin fyrir auk þess sem þess er krafist að gjörningum Milestone og fjárfestingarfélaginu Mætti verði rift. Máttur keypti hlut Finns Ingólfssonar, fyrrverandi ráðherra, í Icelandair Group.

Sama dag verður tekið fyrir annað riftunarmál þrotabúsins. Í þetta sinn eru það kaup á hrossaræktunarbúinu Feti og Lyfjum og heilsu.

Grímur Sigurðsson, skiptastjóri þrotabús Milestone, hefur í næstu að snúast, en skömmu eftir að Fet og apótekið eru á dagskrá er fer fram fyrirtaka í máli Milestone gegn systkinunum Ingunni Gyðu Wernersdóttur, Karli og Steingrími auk Guðmundar Ólasonar, fyrrverandi forstjóra Milestone.

Að minnsta kosti þrjú önnur riftunarmál þrotabúsins eru á dagskrá morgun. Karl er á meðal stefnda í tveimur tilvikum en Steingrímur bróðir hans í öðrum tveimur. Á meðal annarra félaga sem tengjast þeim eru félagið Leiftra, Sáttur og Aurláki.

Aurláki er félag þeirra Karls og Steingríms sem keypti Lyf og heilsu út úr Milestonesamstæðunni fyrir 3,4 milljarða króna. 2,5 miljarðar af kaupverðinu voru greiddar með yfirtöku skulda. Annað félag tengt Karli, Moderna Finance í Svíþjóð, lánaði þeim bræðrum 900 milljónum króna til kaupanna. Samkvæmt skilmálum áttu þeir að greiða skuldina þegar þeir gætu það.

Miðvikudagur

Karl er aftur í aðalhlutverki á miðvikudag í máli Sigríðar Jónsdóttur, fyrrverandi eiginkonu hans. Þau skildu árið 2004 en hafa um skeið tekist á um skiptingu eigna í réttarsölum.