Það eru tvö mál þar sem þær Katrín Olga og Sigríður Margrét hafa fengið á sig mikla gagnrýni sem konur og stjórnendur Já. Annað þeirra var þegar Egill Einarsson, betur þekktur sem Gillz, var fenginn til að sjá um útlitið á Símaskránni.

Var það rétt ákvörðun að fá hann til að sjá um símaskrána?

„Ef við stæðum frammi fyrir slíkri ákvörðun í dag, þá myndum við ekki taka þessa sömu ákvörðun, en það er auðvelt að vera vitur eftir á,“ segir Katrín Olga í viðtali við Viðskiptablaðið.

Hitt málið tengdist lokun þjónustuveri Já á Akureyri fyrir um tveimur árum þar sem margar konur misstu vinnuna. Katrín segir gagnrýnina sem þær fengu í kjölfarið á vissan hátt ómaklega. „Málið er að þetta hefur ekkert með konur að gera. Við erum að reka fyrirtæki. Þú verður að hagræða ef hægt er að gera betur. Á vissan hátt fannst mér hún ómakleg þessi gagnrýni, út frá því að við værum konur. Við erum fyrst og fremst stjórnendur fyrirtækis, svo vill til að við erum konur. Ekki eru karlar gagnrýndir fyrir að reka karla. Ég hef ekki heyrt að það sé forsíðufrétt.“

Nánar er rætt við Katrínu Olgu í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.