Í dag voru kynntar helstu niðurstöður nýrrar rannsóknar um hvenær lífeyrissparnaður telst nægilegur til framfærslu. Þetta kemur fram í frétt á vef Velferðarráðuneytisins. Rannsóknin er hluti af alþjóðlegu verkefni sem gerir samanburð á svokölluðum „nægjanleika“ lífeyris (e. retirement savings adequacy ) fólks á aldrinum 35-64 ára sem var á vinnumarkaði árið 2012.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar stenst íslenska lífeyriskerfið mjög vel stefnumarkandi tilmæli Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, um uppbyggingu lífeyriskerfa. Stafar það einkum af mikilli sjóðsöfnun, öryggisneti almannatrygginga, sem er mikilvægt fyrir lágtekjuhópa, og því að lífeyrisþegar framtíðarinnar fái almennt meiri lífeyri en nú er greiddur.

Almennt lágur lífeyrir

Veikleikar íslenska lífeyriskerfisins voru einnig greindir í rannsókninni og þá einkum hvort einhverjir hópar þjóðfélagsins ættu á hættu að lenda undir viðmiðinu um nægan lífeyri. Þá eru fjögur atriði talin í rannsókninni sem veikleikar íslenska kerfisins:

  • Lífeyrir er almennt talinn lágur um þessar mundir,
  • Verulegur munur er á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna og fólks á almennum vinnumarkaði, þótt jöfnunaráhrif almannatrygginga dragi nokkuð úr muninum.
  • Sterk tekjutenging er milli almannatrygginga og lífeyristekna.
  • Margir ná ekki viðmiði um 56% lífeyrishlutfall úr samtryggingarsjóðum.

Þá segir í rannsókninni að erfitt sé að benda á hópa sem eigi á hættu að fá ónógan lífeyri, þar sem almannatryggingar bæta upp lágan lífeyri frá samtryggingarsjóðum, en nýbúa af fyrstu kynslóð mun sennilega skorta iðgjaldaár í samtryggingarsjóðum sem dregur úr réttindum þeirra í samanburði við aðra. Rannsóknin sýnir greinilegan mun á lífeyri eftir kyni, þar sem karlar fá 24% hærri lífeyri að meðaltali en konur.

Í skýrslunni er bent á mögulegar úrbætur, svo sem að samræma lífeyriskerfi á almenna vinnumarkaðnum og hjá hinu opinbera og að auka sveigjanleika varðandi lífeyristöku og iðgjaldagreiðslur, til þess að fólk geti bætt sér upp lítinn lífeyrissparnað á yngri árum.

Hér má nálgast rannsóknina.