Sjö af hverjum tíu atvinnulausum sem fá vinnu á sumrin eru karlar. Þannig hafa 1.248 karlar fengið sumarvinnu samanborið við 545 konur þetta árið. Skýring þessa er einna helst sú að ýmis byggingar- og iðnaðarvinna tekur við sér á sumrin, en mikill meirihluti þeirra sem vinna í þeim geira er karlmenn. „Það er þessi sumarsveifla sem tengist byggingariðnaði. Hún kemur helst við karla,“ segir Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun.

Atvinnuleysi hefur ekki verið jafn lágt eftir hrun og það er nú. Einungis 6.053 eru nú á atvinnuleysisskrá samanborið við 16.750 manns þegar verst lét snemma árs 2009. Hlutfall atvinnulausra á landinu öllu er í dag 3,2%.

Iðnmenntaðir eru ólíklegastir til að vera atvinnulausir en einungis 9% allra atvinnulausra eru með iðnmenntun. „Það kemur mér ekkert á óvart,“ segir Baldur Gíslason, skólameistari Tækniskólans. „Í sumum iðngreinum hefur verið lítið atvinnuleysi lengi en það var talsvert atvinnuleysi í ákveðnum greinum i byggingargeiranum. Það hefur lagast mjög mikið á síðustu mánuðum,“ bætir hann við. Baldur segir að tilhneiging svo stórs hluta ungs fólks til að taka stúdentspróf og háskólapróf í framhaldi af því sé til marks um að það gefi atvinnumöguleikum og afkomu seinna meir ekki nægilegan gaum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.