Karlar komast fyrr en konur á vinnumarkaðinn og fá forskot strax í fyrstu skrefum. Margar konur í stjórnunarstöðum telja sig hafa lagt meira á sig en karlmenn í sömu stöðu. Þetta er á meðal niðurstaðna í lokaverkefni Lísbetar Hannesdóttur í meistaranámi í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst.

Rannsóknin byggir á könnun sem 106 konur af lista Frjálsrar verslunar yfir áhrifamestu konur landsins og lista Félags kvenna í atvinnulífinu yfir konur í stjórnum tóku þátt í. Í ljós kom að stór hluti kvennanna átti foreldri eða fjölskyldumeðlim sem er stjórnandi. Þá eru þær líklegri til að hafa litið upp til feðra sinna í æsku en móður.

Haft er eftir Lísbetu í Fréttablaðinu að konunum fannst tími barneigna skipta miklu máli og að margar töluðu um að barneignir væru betri fyrr en síðar. Þá hafi sumar kvennanna sagt að það væri gott að geta sagst vera hættar barneignum í atvinnuviðtölum.