Greinilegt er að það borgar sig fyrir fólk að gifta sig, ef horft er til heildartekna á ári. Þetta á sérstaklega við um karla, en kvæntir karlmenn eru með umtalsvert hærri meðaltekjur en ókvæntir.

Meðalheildartekjur kvæntra karla eru um helmingi hærri en hjá ókvæntum körlum. Samkvæmt nýbirtum upplýsingum frá Hagstofunni eru kvæntir karlar með hærri tekjur en ókvæntir og giftar konur eru tekjuhærri en ógiftar.

Meðaltekjur kvæntra karla á aldrinum 25-65 ára voru árið 2010 6,24 milljónir króna á ári, en meðaltekjur ókvæntra karla á sama aldursbili voru 4,1 milljón króna á ári.

Meðalmánaðartekjur kvæntra karla voru því um 520.000 krónur en mánaðartekjur ókvæntra voru um 340.000 krónur á mánuði.

Munurinn á giftum og ógiftum konum er ekki eins mikill, en er þó merkjanlegur. Meðalárstekjur giftra kvenna árið 2010 voru 3,8 milljónir á ári, eða um 316.000 krónur á mánuði. Meðalárstekjur ógiftra kvenna voru á sama tíma um 3,66 milljónir á ári, eða um 305.000 krónur á mánuði.

Nánar er fjallað um launamun giftra og ógiftra í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.