Karlmenn stýra yfir 93% fyrirtækja sem fara með fé eða stunda fjárfestingar hér á landi, samkvæmt samantekt Kjarnans . Því til viðbótar eru forsætisráðherra og fjármálaráðherra landsins, formenn stærstu flokkanna, þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson. Seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri og aðalhagfræðingur Seðlabankans eru líka allir karlar eins og forstjórar orkufyrirtækjanna; Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, HS Orku, Orkubús Vestfjarða, Landsnets og Orkusölunnar.

Karlarnir í nær öllum valdastólum

Á meðal þess sem fram kemur í Kjarnanum í dag er að ein kona, Birna Einarsdóttir, stýrir banka hér á landi. Hjá bankanum eru ellefu undirsvið, sjö tengjast rekstri og fjögur eru stoðsvið. Átta karlar eru yfir þeim sviðum en þrjár konur. Undir Steinþóri Pálssyni, bankastjóra Landsbankans, eru sjö framkvæmdastjórar. Þar eru konurnar fjórar og karlarnir þrír. Höskuldur H. Ólafsson stýrir svo Arion banka. Undir forstjóra eru níu framkvæmdastjórar. Karlarnir eru sex en konurnar þrjár. Hjá MP banka er svo ein kona í hópi sjö lykilsstjórnenda sem heyra undir Sigurð Atla Jónsson, forstjóra bankans. Hún er starfsmannastjóri.

Þá stýrir kona einum af tólf sparisjóðum landsins. Það er Anna Karen Arnarsdóttir sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Suður-Þingeyinga. Forstöðumaður sparisjóðsins á Höfn, sem er í eigu Sparisjóðs Vestmanneyja, er jafnframt kona.

Þá er talið upp í Kjarnanum að karlar stýra ýmsum öðrum fjármálafyrirtækjum, s.s. Straumi fjárfestingarbanka, Virðingu/Auði Capital, Íslenskum verðbréfum, HF Verðbréfum, Júpiter, Arctica Finance, Alda Asset Management og GAMMA. Karlar stýra sömuleiðis kortafyrirtækjunum þremur: Valitor, Borgun og Kortaþjónustunni.

Þessu til viðbótar er Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, eina konan sem stýrir fyrirtæki sem skráð er á hlutabréfamarkað hér á landi. Fyrirtækin á markaði eru 10 talsins. Í Kjarnanum er talið upp að karlar stýri líka þeim fimm félögum sem líklega verði skráð á markað til viðbótar á þessu ári.

Karlar stýra sömuleiðis tíu stærstu lífeyrissjóðum landsins. Af 26 sjóðum stýra konur tveimur. Það eru þær Auður Finnbogadóttir, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga og Guðrún K. Guðmannsdóttir, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Vestfirðinga. Þórey S. Þórðardóttir er svo framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.