Gildandi lög um fæðingar-og foreldraorlof veita hvoru foreldri um sig rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði vegna fæðingar, ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Auk þess eiga foreldrar samkvæmt lögunum rétt á allt að þremur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér.

Jafn réttur til fæðingarorlofs er sagður forsenda kynjajafnréttis hér á landi og var markmið laganna, þegar þau voru sett, það að karlar og konur gætu tekið jafnan þátt á vinnumarkaði. Jafn réttur til fæðingarorlofs átti að stuðla að því að karlar og konur sætu við sama borð þegar kæmi að starfsmannaráðningum. Konur ættu ekki að vera í veikari stöðu því þær væru líklegri til að taka sér leyfi frá vinnu vegna barneigna.

Samkvæmt tölum fæðingarorlofssjóðs er þó töluverður munur á orlofstöku foreldra. Karlar nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks í æ minna mæli en áður. Tölur hér á eftir eru miðaðar við fæðingarár barns. Fyrir börn fædd árið 2004 nýttu samtals 3.755 karlar sér fæðingarorlof eða fæðingarstyrk í samanburði við 4.285 konur, eða tæp 90 prósent. En fyrir börn fædd árið 2010 nýttu 4.032 karlar sér rétt sinn í samanburði við 4.821 konu, eða tæp 84%.

Í skýrslu velferðarráðherra um fæðingar- og foreldraorlof þar sem bornar eru saman tölur frá fæðingarárunum 2004 til 2010 er bent á að miklar breytingar hafa orðið í fæðingarorlofstöku foreldra. Þá hafa karlar síður nýtt sér rétt sinn til fæðingarorlofs og tekið færri daga árið 2009 en árið 2004. Í skýrslunni er efnahagshrunið talið bera höfuðábyrgð á þessu. Hins vegar nýta karlmenn í dag enn síður rétt sinn til fæðingarorlofs en rétt eftir hrun, þrátt fyrir efnahagslegan bata hér á landi síðan þá.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .