Um áramótin bjuggu 319.560 manns á Íslandi. Landsmönnum fjölgaði um 470 á síðasta ársfjórðungi ársins 2011. Skiptist hópurinn sem býr hér á landi nokkuð jafnt milli kynja; 160.360 karlar og 159.200 konur. Það voru því rúmlega þúsund fleiri karlar sem bjuggu á Íslandi um síðustu áramót. Þetta kemur fram í mannfjöldatölum Hagstofu Íslands.

Af þessum rúmlega 319 þúsund landsmönnum búa 203.570 á höfuðborgarsvæðinu. Erlendir ríkisborgarar eru 20.930.

Flestir til Norðurlandanna

Noregur var helsti áfangastaður brottfluttra íslenskra ríkisborgara á þriðja ársfjórðungi. Þangað fluttust 590 manns á. Til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar fluttust 1.380 íslenskir ríkisborgarar af 1.730 alls. Af þeim 1.000 erlendu ríkisborgurum sem fluttust frá landinu fóru flestir til Póllands, 360 manns. Ekki liggur enn fyrir sundurliðun á áfangastöðum brottfluttra á fjórða ársfjórðungi.

Milli áranna 2006 og 2007 fór fjöldi landsmanna yfir 300 þúsund.