Sex eru í framboði til stjórnar Vátryggingafélags Íslands, en framboðsfrestur rann út í dag. Fjórar konur og tveir karlar gefa kost á sér í fimm stjórnarsæti og samkvæmt hlutafélagalögum verða tveir stjórnarmannana að vera af einu kyninu en þrír af hinu. Í ljósi þess að aðeins tveir karlar gefa kost á sér munu þeir báðir enda í stjórn félagsins.

Tekið er fram í tilkynningu frá VÍS að samkvæmt samþykktum félagsins skal bregðast við ef kynjahlutföll eru ekki í samræmi við þessar kröfur. Segir þar m.a: „Náist kynjahlutföll [...] ekki við kosningu stjórnar á hluthafafundi skal sá er fékk flest atkvæði af þeim sem náðu ekki kjöri, og er af því kyni sem hallar á, taka sæti þess er fæst atkvæði fékk af þeim sem náðu kjöri, og er af fjölmennara kyninu.“

Í tilkynningunni kemur einnig fram að krafist hafi verið þess að markfeldiskosningu verði beitt við stjórnarkjörið, en í grunninn þýðir það að í stað þess að hluthafar hafi jafnmörg atkvæði og hlutir þeirra í fyrirtækinu eru, séu atkvæðin margfölduð með fjölda stjórnarsæta. Munu hluthafar áðalfundi því hafa fimm sinnum fleiri atkvæði til ráðstöfunar á aðalfundinum.

Í framboði til aðalstjórnar VÍS eru þau Ásta Dís Óladóttir, Bjarni Brynjólfsson, Guðrún Þorgeirsdóttir, Helga Jónsdóttir, Maríanna Jónasdóttir og Steinar Þór Guðgeirsson. Í framboði til varastjórnar eru þau Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir og Davíð Harðarson og eru þau bæði sjálfkjörin.