Origo leggur sérstaka áherslu á að jafna stöðu kynjanna innan veggja fyrirtækisins. Það sem af er ári hefur fyrirtækið ráðið 22 starfsmenn, þar af 12 konur eða 55% og miðar vel að ná markmiði sínu um jöfn kynjahlutföll í ráðningum á þessi ári. Í kerfisrekstri og framlínuþjónustu Origo eru nú þrjár konur og þrír karlar í starfi hópstjóra og forstöðumanna á ýmsum aldri og með fjölbreytta reynslu og bakgrunn.

„Þetta eru ánægjuleg tíðindi og við hljótum að fagna þessu þó við eigum enn langt í land. Upplýsingatækni er ennþá frekar karllægur geiri og það hafa verið fáar konur í þessum hluta tækninnar. Það er alveg ljóst að við þurfum að skapa fleiri kvenfyrirmyndir í þessum geira og laða að okkur flottar konur sem eru svo sannarlega þarna úti. Það er líka mikilvægt að bjóða upp á jöfn tækifæri til starfsþróunar og það hefur verið raunin hér hjá Origo,“ segir Ásta Guðmundsdóttir, forstöðumaður kerfisreksturs og framlínuþjónustu hjá Origo.

„Aukin fjölbreytni gerir okkur sterkari og endurspeglar betur þá flóru sem við erum að þjónusta og vinna með. Hjá Origo er sífellt aukin krafa um fjölbreytni, ekki bara í stefnu fyrirtækisins heldur eru starfsmenn einnig að kalla eftir því. Karlarnir taka okkur konunum fagnandi og dínamíkin er eftir því,“ segir Ásta.