Ný könnun breska fyrirtækisins Experteer, sem er nokkurs konar atvinnumiðlun fyrir stjórnendur, sýnir að karlkyns stjórnendur eru með mun hærri laun en kvenkyns stjórnendur í sambærilegum störufm.

Í könnun meðal 2.414 stjórnenda og millistjórnenda, þar sem allir aðilar fá yfir 50 þúsund Sterlingpund á ári í laun, kom í ljós að karlmenn eru með 19% hærri tekjur en konur.

Mestur var munurinn í ráðgjafastörfum þar sem karlmen voru með að meðaltali um 100 þúsund pund á árinu á meðan konur fengu greidd 75 – 80 þúsund pund á ári.

Þá var um 20% munur á milli kynjanna í fjármála- og tæknigeiranum, um 11% munur í smásölugeiranum og um 6% munur milli stjórnenda í opinberum störfum.

Könnun Experteer kemur fram aðeins nokkrum vikum eftir að opinberar tölur voru birtar í Bretlandi þar sem í ljós kom að karlmenn á vinnumarkaðir þéna að meðaltali 15,54 pund á meðan kvenmenn þénuðu 12,88 pund að meðaltali.

„Þrátt fyrir endalausar aðgerðir yfirvalda eru vonbrigði að lítill sem enginn árangur hefur náðst í því a jafna laun kynjanna,“ segir Torsten Muth, framkvæmdastjóri Experteer.

„Niðurstaðan hlýtur að vera sú að fyrirtækin eru að missa af góðum starfsmönnum ef þau eru ekki að tíma að greiða þeim almennileg laun."