Þeir karlmenn sem hingað til hafa litið svo á að konur eigi að vera heima hjá sér kunna ef til vill að vera stimplaðir „gamaldags“ – en eru engu að síður mun líklegri til að fá hærri laun en konur.

Þannig byrjar umfjöllun BBC um bandaríska rannsókn sem birt er í Journal of Applied Psychology en þar er gefið til kynna að svokallaðar karlrembur kunni að ná lengra en þeir karlmenn sem tileinka sér „nýtískulegri“ hugsunarhátt, t.d. um jafnrétti kynjanna.

Samkvæmt rannsókninni eru karlremburnar með hærra kaup en aðrir á ári, eða því sem nemur um 8.500 Bandaríkjadölum að meðaltali.

Rannsóknin sem um ræðir fór fram í Háskólanum í Flórída fylki í Bandaríkjunum (University of Florida) en þátttakendur voru tæplega 13.000 manns af báðum kynjum. Rannsóknin hófst árið 1979 en þá voru þátttakendurnir á aldrinum 14- 22. ára.

Síðan þá hafa sömu þátttakendur verið spurðir út í menntun sína, starfsferil og laun svo eitthvað sé nefnt auk annarra viðhorfa gagnvart hinu og þessu í lífinu, þar á meðal jafnrétti kynjanna.

Þátttakendur voru meðal annars spurðir hvort þeir hefðu þá skoðun að konur ættu frekar að starfa heima en leita sér starfsframa á almennum vinnumarkaði. Þá voru þeir einnig spurðir hvort þátttaka kvenna á vinnumarkaði hefði jákvæð áhrif á jafnrétti kynjanna.

Eins og rannsakendur höfðu gert ráð fyrir voru fleiri karlmenn en konur á þeirri skoðun að konur ættu að halda sér heima við þó er tekið fram að bilið hafi farið minnkandi síðustu árin.

Þegar kom að því að spyrja um laun kom í ljós að þeir sem voru á þessari skoðun, þ.e. að konu ættu frekar að vera heima, voru með nokkuð hærri laun en aðrir.

Þá kom einnig í ljós að þær konur sem voru algjörlega á móti því að kvenfólk héldi sig heima voru með um 1.500 dala hærri laun en aðrar konur.

Dr Magdalena Zawisza, sálfræðingur við Háskólann í Winchester segir í samtali við BBC að það kunni að vera aðrir þættir sem hafi áhrif á launamuninn. Hún segir að þeir karlmenn sem hafi „íhaldssamari“ skoðanir séu þeir sem hafi meiri áhuga á völdum en aðrir og kunni því að hafa lagt meira á sig til að afla meira og ná lengra en aðrir.

„Svo er önnur kenning sem segir að atvinnurekendur eru líklegri til að gefa þeim sem eru fyrirvinnur heimilisins stöðu- og launahækkanir ef þeir vita af aðstæðum. Þeir gera sér grein fyrir þörfinni fyrir heimilið ef þeirra starfsmaður er eina fyrirvinnan,“ segir Zawisza.