Stytta af fyrsta evrópska landnámsmanninum í Norður Ameríku, Þorfinni Karlsefni, eftir Einar Jónsson myndhöggvara sem staðið hefur á árbakka Schuylkill árinnar í Fíladelfíuborg í Bandaríkjunum stendur þar ekki lengur.

Á þriðjudagskvöld fannst styttan, sem er um 2,25 metra há, liggjandi ofan í ánni, en til að losa hana af stallinum þurfti að nota kúbein sem fannst á staðnum. Þegar styttan var síðan hífð upp úr ánni kom í ljós að hausinn var brotinn af.

Fíladelfíuborg hefur þegar ráðið fyrirtæki til að endurreisa styttuna og leitar lögreglan að sökudólgunum en enginn er grunaður enn. Íslenski myndhöggvarinninn Einar Jónsson gerði styttuna árið 1918 og setti Fíladelfíuborg hana upp árið 1920 í Fairmount garðinum meðfram árbakkanum.

Garðurinn hýsir fjölmargar styttur tileinkaðar sögu Bandaríkjanna en annað eintak af styttunni má sjá við dvalarheimili aldraðra við Hrafnistu, rétt við Laugarásbíó í Reykjavík. Í kringum 9. október ár hvert halda Bandaríkjamenn upp á dag Leifs Eiríkssonar, sem Íslendingasögurnar segja hafi fyrstan stigið land í Norður Ameríku Evrópumegin frá.

Hópar hvítra þjóðernissinna hafa reynt að nýta daginn og haldið mótmælastöður við styttuna af Þorfinni Karlsefni í garðinum en aðrir hópar mætt til að mótmæla þjóðernissinnunum. Styttan hefur áður orðið fyrir skakkaföllum út af átökunum þar sem spreyjað hefur verið á hana segir í frétt CNBC um málið.