KPMG hefur dregið upp alþjóðlega mynd af þeim starfsmanni sem líklegastur er til að gerast sekur um fjársvik. Þetta er karlmaður, 36 til 45 ára, sem sinnir stjórnunarstarfi í fjármáladeild eða tengdri deild og hefur meira en fimm ára starfsreynslu. Helga Harðardóttir, meðeigandi og yfirmaður innri endurskoðunar hjá KPMG segir að líklega sé vel hægt að heimfæra þessa mynd á íslenskt umhverfi sem ætti ekki að vera frábrugðið.

„Þau mál sem hafa komið upp hér á landi hafa sömu einkenni og lýst er í alþjóðlegu rannsókninni. Þetta eru aðilar sem eru komnir í ákveðna stöðu, njóta mikils trausts og geta nýtt sér veikleika í innra eftirliti sem til staðar eru.“

Tvenns konar fjársvik

Helga segir fjársvikum megi skipta í tvo flokka. Annars vegar er um vísvitandi fölsun á fjárhagslegum upplýsingum þar sem tekjur eða eignir eru oftaldar eða skuldir vantaldar. „Þetta eru oft alvarlegustu glæpirnir og erfiðast að rannsaka þá.“

Örfá mál af þessu tagi hafa komist upp á Íslandi en Helga bendir á að hugsanlega geti slík mál verið til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara. Hún segir að langflest fjársvikamál tilheyri hinum flokknum sem er misnotkun á eignum, s.s. fjárdráttur, þar sem stolið er af bankareikningum, misnotkun á kostnaðarliðum þar sem greiddur er kostnaður sem ekki tengist rekstri fyrirtækisins eða beinn þjófnaður t.d á birgðum eða öðrum eignum en öðru nafni kallast þetta fjárdráttur.

Helga segir þessi mál mun algengari og að nokkur mál af þessu tagi hafi komið til skoðunar hjá KPMG hér á landi. Helga segir yfirleitt ekki um háar fjárhæðir að ræða en skaðinn sé fyrst og fremst tilfinningalegur. „Samstarfsmenn upplifa fjársvik sem mikið áfall þar sem farið hefur verið á bak við þá og það traust sem þeir hafa sýnt viðkomandi hefur verið misnotað“.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.