Karyn Mashima, ein áhrifamesta konan í bandarísku viðskiptalífi, mun halda erindi um hagnýtingu samskipta- og samvinnulausna fyrir fyrirtæki og stofnanir á ráðstefnu á Nordica hóteli 6. apríl næstkomandi á vegum Nýherja.

Í frétt Nýherja kemur fram að markmið ráðstefnunnar, sem er á vegum Nýherja, er að fræða stjórnendur, starfsmannastjóra, tæknimenn o.fl. um þau byltingarkenndu áhrif sem slíkar lausnir hafa á rekstrarform og samkeppnishæfni fyrirtækja og vinnuumhverfi starfsmanna. Auk Karyn munu háttsettir stjórnendur hjá IBM, Microsoft, Avaya og FL Group flytja erindi á ráðstefnunni.

Viðskiptatímarit vestanhafs hafa útnefnt Karyn Mashima sem eina áhrifamestu konu í bandarísku viðskiptalífi. Hún hefur um 20 ára reynslu af leiðtogastörfum og hefur gegnt stjórnendastöðum hjá Xerox, Hewlett-Packard, AT&T og Lucent Technologies. Í dag er hún framkvæmdastjóri hjá Avaya, sem er leiðandi fyrirtæki í samskiptalausnum. Karyn hefur haldið fjölda fyrirlestra á ráðstefnum víðs vegar um heim.

Nútíma samskipta- og samvinnulausnir fela í sér byltingu í rekstrarumhverfi fyrirtækja og mikla breytingu fyrir starfsmenn. Skrifstofan er útvíkkuð úr venjubundnu skrifstofuhúsnæði yfir í sýndarskrifstofu í netheimum þar sem starfsmenn hafa fullan aðgang að samtengdu dagbókarkerfi, tölvupósti, talhólfi, vefspjalli o.fl. upplýsingum úr stoðkerfum fyrirtækisins hvar sem þeir eru staddir.

Fyrirtæki sem hagnýta sér slíkar lausnir geta skapað sér samkeppnisforskot með skjótum viðbrögðum og auknum framkvæmdahraða þar sem starfsmenn hafa ávallt aðgang að réttum upplýsingum á réttum tíma. Ný viðskiptamódel verða til sem lágmarka kostnað vegna skrifstofurekstrar, þ.m.t. vegna húsnæðis og síma, og því minni þörf á fjárbindingu í dýrum skrifstofubyggingum.

Starfsmenn geta veitt sömu þjónustu heiman frá sér og á skrifstofunni og geta tengst öllum skjölum og gagnagrunnum sem þeir hafa venjulega aðgang að í vinnunni. Með notkun tölvu, síma eða annarra þráðlausra samskiptatækja er hægt að fá aðgang að öllum skilaboðum hvort sem um er að ræða tölvupóst, talskilaboð eða fax. Boða má til símafundar í gegnum farsíma og sjá hvaða samstarfsmenn eru viðlátnir á hverjum tíma til að leysa úr málum fyrir viðskiptavini. Þetta þarf þó ekki að þýða að menn séu í vinnunni allan sólarhringinn því hin nýja tækni gerir starfsmönnum kleift að stjórna aðgangi að sér og forgangsraða símanúmerum og netföngum. Þrátt fyrir auðveldari aðgang er hægt að tryggja fullkomið öryggi gagna.