Kass er nýtt smáforrit, þróað af sprotafyrirtækinu Memento í samstarfi við Íslandsbanka. Því er ætlað að keppa við Aur, greiðslumiðlunarsmáforrits símafyrirtækisins Nova.

Appið gerir notendum kleift að millifæra peninga sín á milli. „Markmiðið með Kass er að búa til greiðsluumhverfi sem kemur til móts við breytta tíma,” segir Arnar Jónsson, framkvæmdastjóri Memento. „Í dag eru allir tengdir, alltaf og alls staðar, og samskipti ganga hratt og örugglega fyrir sig með tilkomu samskiptamiðla. Greiðslusamskipti eiga að vera einföld og áhugaverð.”

Hann segir að áhersla hafi verið lögð á að viðmót forritsins sé öruggt, einfald og þægilegt. Markmiðið sé í raun að tvinna saman samfélagsmiðil og greiðslukerfi, en með greiðslunum er hægt að senda myndir.

Haft er eftir Unu Steinsdóttur framkvæmdastjóra Viðskiptasviðs Íslandsbanka í fréttatilkynningu að smáforritið sé góð viðbót við þjónustu bankans. Þá sé starfsfólk bankans einnig ánægt með þróunarferlið og samstarfið við Memento.