*

mánudagur, 15. júlí 2019
Innlent 15. mars 2018 11:29

Kassarnir komnir í notkun í Krónunni

Nýir sjálfsafgreiðslukassar hafa reynst vel frá opnun Krónunnar í Nóatúni í morgun en fyrirtækið hyggst setja þá upp víðar.

Höskuldur Marselíusarson
Starfsmaður Krónunnar aðstoðar viðskiptavini við notkun nýju sjálfsafgreiðslukassanna.
Höskuldur Marselíusarson

Við opnun verslunar Krónunnar í Nóatúni klukkan 9 í morgun voru fyrstu sjálfsafgreiðslukassar verslunarinnar teknar í notkun, en um er að ræða fjóra kassa þar sem viðskiptavinir geta gengið frá viðskiptum sínum sjálfir.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum hyggst verslunin einnig setja upp sjálfsafgreiðslukassa í verslun fyrirtækisins á Hvolsvelli. Loks á fyrirtækið kassa fyrir tvær verslanir til viðbótar en ekki hefur verið ákveðið hvar þeir verða settir upp.

Steven Robinson, sem starfar fyrir NCR, fyrirtækið sem framleiðir kassana hefur verið hér á landi síðustu daga við að hjálpa til við að þjálfa starfsmenn við notkun þeirra og hvernig best er að leiðbeina viðskiptavinum sem og við uppsetningu kassanna.

Íslendingar njóta þess að prófa

Spurður hvernig þetta hafi gengið þessa fyrstu klukkustundir segir hann viðtökurnar hafa verið góðar. „Við höfum séð helling af viðskiptavinum nota kassana. Íslendingar virðast kunna vel við að nota þá, þeir virðast virkilega njóta þess að prófa kassana.“

Steven Robinson bendir blaðamanni á hve næmir skannarnir eru á kössunum, ólíkt því sem hann hefur kynnst erlendis þar sem þurfti að beina strikamerkinu mjög vandlega inn í hann. Í þessum kössum þurfti einungis að setja vöruna nálægt skannanum til að varan væri stimpluð inn. „Þetta er nýjasta útgáfan hjá okkur,“ sagði Steven sem sagðist þess fullviss um að þessi tækninýjung muni ná fótfestu hér á landi.

Starfsfólk mun aðstoða við notkun kassanna

Í tilkynningu frá Krónunni um nýju kassana segir að viðskiptavinir muni áfram hafa val um tvo afgreiðslumáta í versluninni í Nóatúni.

Áfram verður hægt að greiða fyrir vörur á hefðbundinn hátt við mannaða afgreiðslukassa. Nýju sjálfsafgreiðslukassarnir bætast við sem valkostur fyrir þá sem vilja afgreiða sig sjálfir. Starfsfólk verslunarinnar verður við kassana og aðstoðar viðskiptavini við sjálfsafgreiðsluna. Krónan leggur mikið kapp á jákvæða upplifun viðskiptavina sinna í verslunum segir jafnframt í tilkynningunni.

Fjöldi afgreiðslukassa tvöfaldaðist

Sjálfsafgreiðslulausnin er hugsuð til að stytta biðraðir á háannatíma. Fjöldi afgreiðslukassa verður tvöfaldaður í versluninni í Nóatúni sem ætti að auka skilvirkni og draga verulega úr röðum. Nýja sjálfsafgreiðslukerfið er afar einfalt og öruggt. Allir sem vilja greiða með greiðslukorti geta notað það. 

Reynslan frá Norðurlöndum sýnir að viðskiptavinir velja í auknum mæli sjálfsafgreiðslu fram yfir þjónustaða afgreiðslukassa í matvöruverslunum. Í Bretlandi er sjálfsafgreiðsla fyrsta val viðskiptavina í verslunum. Forsvarsmenn Krónunnar telja því að sjálfsafgreiðslulausnir mæti kröfum neytenda og auki val þeirra við innkaupin.

Advania þjónustar kerfið en afgreiðslukassarnir eru framleiddir af NCR sem er leiðandi á heimsmarkaði í afgreiðslulausnum. Kerfið er því þaulprófað um allan heim og er einstaklega notendavænt.

Segir viðskiptavini kunna að meta tímasparnaðinn

„Margir af okkar viðskiptavinum vilja vera snöggir að versla og kunna að meta tímasparnaðinn við að afgreiða sig sjálfir við innkaupin. Með sjálfsafgreiðslu minnka álagstoppar og okkar viðskiptavinir hafa aukið val,“ segir Jón Björnsson, forstjóri Festi, sem rekur Krónuna.

„Við fögnum því að Krónan nýti tæknina til að bæta þjónustu við viðskiptavini sína,“ segir Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania sem hefur verið með í uppsetningu kassana fyrir félagið.

„Við höfum séð sambærilega þróun á öllum sviðum samfélagsins, og vitum að meirihluti fólks kýs nú að innrita sig sjálft í flug eða millifæra sjálft í heimabankanum frekar en að bíða í röð eftir aðstoð. Það er framsækið skref að bjóða uppá sjálfsafgreiðslu sem valkost í verslunum á Íslandi.“

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is