Ósamræmi á milli hillu- og kassaverðs í Húsasmiðjunni var 20% þegar Neytendastofa kannaði málið í júlí. Verðmerkingar í Byko voru í lagi.

Neytendastofa fór í byggingavöruverslanirnar tvær til að fylgja eftir könnun sem gerð var í júní þar sem athugað voru verðmerkingar og samræmi milli hillu- og kassaverðs á 25 vörum. Þær verslanir sem um ræðir eru Byko á Skemmuvegi og Húsasmiðjan í Skútuvogi.

„Í verslun Byko voru vörur vel merktar. Í verslun Húsasmiðjunnar var annað á nálinni þar sem verðmerkingar voru ekki í lagi og ósamræmi á milli hillu og kassaverðs var 20%. Vörur voru ekki á réttum stöðum og vantaði verðmerkingar víða...“ segir á vef Neytendastofu.  Það megi því búast við að tekin verði ákvörðun um sektir samkvæmt lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.