Ítalska hagkerfið er að sigla inn í djúpstæða kerfislæga kreppu sem í kjölfarið gæti valdið því að Ítalía yrði nauðbeygð til að ganga úr evrópska myntbandalaginu, að því er fram kemur í nýrri skýrslu hagrannsóknarfyrirtækisins Capital Economics.

Í frétt breska dagblaðsins The Daily Telegraph segir að á undanförnum áratug hafi ítölskum stjórnvöldum mistekist að ráðast í nauðsynlegar umbætur til að auka sveigjanleika á vinnumarkaði. Sökum þessa hefur niðursveiflan í ítalska hagkerfinu um þessar mundir verið djúpstæðari en ella, jafnframt því að aðhaldssöm peningastefna Evrópska seðlabankans og hátt gengi evrunnar hefur reynst sem myllusteinn um háls hagkerfisins. Vöxtur í framleiðni hefur aðeins aukist um 0,5% á þessu ári.

Fram kemur í skýrslunni að lítill sem enginn hagvöxtur, dvínandi samkeppnishæfni á alþjóðamörkuðum og hækkandi fjármagnskostnaður ríkisins gæti valdið því að þær raddir gerðust háværari meðal ráðamanna að Ítalía grípi til þess ráðs að kasta evrunni.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .