Frú May hefur kynnt þinginu tillögur sínar um næstu skref sín varðandi úrgönguna, en þrátt fyrir mestu hrakfarir nokkurrar ríkisstjórnar í sögu landsins þykir mörgum furðulítill munur á þeim hugmyndum – Plani B – og hinum, sem felldar voru í liðinni viku.

Margir telja –  eða óttast –  að svo kunni að fara, að úrgöngunni verði frestað meðan annarra leiða er leitað. Takist ekki að finna annan samningsflöt mun Bretland ganga úr Evrópusambandinu (ESB) samningslaust, en þá mun viðskiptasambandi Bretlands við ESB vera háttað samkvæmt reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Í því felst svo sem enginn dómsdagur, fjölmörg ríki eiga góð og hindrunarlaus viðskipti samkvæmt þeim. Í því samhengi er þó rétt að hafa í huga að Bretar hafa verulegan viðskiptahalla við önnur ríki ESB, svo þau eiga ekki síður mikið undir farsælli og ágreiningslausri úrgöngu Breta, þó að samninganefnd ESB hafi ekki sýnt mesta ákefð um það.

Að semja eða semja ekki
Fyrir marga andstæðinga Brexit –  og þeir eru í meirihluta á þingi þó þjóðin hafi sagt annað –  er tilhugsunin um samningslausa úrgöngu (No Deal, eins og hún er jafnan nefnd) svo óbærileg, að þeir vilja nánast hvað sem er annað til vinna, jafnvel þó svo það kosti trúnaðarrof við þann meirihluta kjósenda, sem vildi úrgöngu og hana refjalausa. Í því skyni hafa þeir verið að vinna að tillögum, sem færa frumkvæði í málinu frá ríkisstjórninni og til þingsins, í von um að útiloka samningslausa úrgöngu og mögulega vægari gerð úrgöngu en frú May mælti fyrir.

Í gær gaf fulltrúi Evrópusambandsins til kynna að sambandið kynni vel að fella sig við slíkan frest, ef um verulega breytta afstöðu Breta væri að ræða, jafnvel þannig að samningaviðræður yrðu teknar upp á nýjum grunni, þá með aðild að tollabandalaginu eða hinum sameiginlega markaði með öllum þeim kvöðum og ávinningi, sem í slíku fælist.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .