Lettneska hagkerfið hefur verið við suðurmark undanfarin misseri. Hagvöxtur hefur verið feykilegur en honum hefur einnig fylgt verðbólga, aukning erlendra skulda og gríðarlega mikill viðskiptahalli. Þetta er að vísu ekki einsdæmi meðal þeirra ríkja Austur- og Mið-Evrópu sem eiga aðild að Evrópusambandinu (ESB), hinsvegar eru framtíðarhorfur lettneska hagkerfisins að öllu óbreyttu ekki vænlegar.

Í nýlegri greiningu Danske Bank á ástandi mála í þeim tíu Austur- og Mið-Evrópuríkjum sem eiga aðild að ESB kemur fram að hagkerfi Lettlands, ásamt hinum Eystrasaltsríkjunum auk Búlgaríu og Rúmeníu, eru á stödd á hættusvæði. Sérfræðingar matsfyrirtækisins Standard & Poor?s taka í sama streng en í síðustu viku lýsti fyrirtækið því yfir að framtíðarhorfur lettneska hagkerfisins væru neikvæðar. Ef einhverjum kann að þykja þetta hljóma kunnuglega er það ekki að ástæðulausu. Í grein um lettneska hagkerfið í dagblaðinu International Herald Tribune hefur blaðamaður eftir Tim Ash, sérfræðingi hjá Bear Sterns, að ástandið sé keimlíkt því sem var á Íslandi í fyrra - en bara alvarlegra.

Ein ástæðan fyrir því að ástandið er alvarlegt er sú að lettneski seðlabankinn rekir fastgengisstefnu. Lettar ganga í Efnahags- og myntbandalag Evrópu og er því gjaldmiðill landsins, let, tengdur evrunni. Seðlabankinn ver gjaldmiðillinn sveiflum sem nema meira en einu prósenti til og frá fastgenginu. Hinn mikli viðskiptahalli og launaskriðið í landinu hefur gert það að verkum að fjárfestar velta fyrir sér hvort að fastgengisstefnan haldi. Í síðustu viku var gert áhlaup á gjaldmiðilinn í kjölfar þess að Standard & Poor?s lýsti því yfir að ósennilegt væri að Lettar myndu geta tekið upp evru fyrir árið 2013. Á sama tíma skrifaði sænski hagfræðingurinn Morten Hansen grein þar sem að hann lýsti því yfir að ástandið í hagkerfinu væri með þeim hætti að stjórnvöld þyrftu að íhuga gengisfellingu í framtíðinni. Greinin skaut Lettum skelk í bringu og fjölmargir tóku að selja let og kaupa evrur í síðustu viku. Stjórnvöld hafa lagt sig fram við að sannfæra almenning og fjárfesta um að gengisfelling sé ekki á döfinni og að gjaldeyrissjóðir seðlabankans væru digrir. Forsætisráðherra landsins, Aigar Kalvitis, sakaði ónafngreinda fjárfesta um að dreifa gengisfellingarorðrómi til þess að geta hagnast á gjaldeyrisviðskiptum.


Þrátt fyrir að ýmis hættumerki sjáist í lettneska hagkerfinu telja margir sérfræðingar að ekki sé ástæða til þess að óttast að seðlabanki landsins geti varið fastgengisstefnu sína. Hinsvegar er ekki hægt að fullyrða að gjaldeyrismiðlarar taki ekki stöðu gegn gjaldmiðli landsins í þeirri von að hagnast á mögulegri gengisfellingu: Viðskiptahallinn, þenslan og verðbólgan minna um margt á ástandið í Taílandi rétt fyrir fjármálakreppuna árið 1997. Það þýðir þó ekki að lettneskt lat muni fara sömu leið taílenskt baht. Höfundur dálksins Lex, sem birtist í Financial Times, benti á það í lok síðustu viku að þrátt fyrir að ójafnvægi í hagkerfum sumra Austur- og Mið-Evrópuríkja sem eiga aðild að ESB minni um margt á ástandið í Suðaustur-Asíu árið 1997 þá sé munurinn veigamikill: Erlendar skammtímaskuldir eru mun minni og ríkissjóðir landanna standa ágætlega. Hinsvegar vekur dálkahöfundur athygli á því að ósveigjanleg peningamálastefna geri það að verkum að hagkerfin séu komin úr jafnvægi og þess vegna verði stjórnmálamenn grípa til aðgerða.
Fleiri hafa áhyggjur af aðgerðaleysi stjórnnmálamanna. Rodrigo Rato, yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF), sagði á dögunum að það væru ekki eingöngu gjaldeyrismiðlarar sem hafi vanmetið hættuna af vaxtamunarviðskiptum. Í ræðu sinni á fundi með fyrrum nemendum Harvard Business School benti hann á að stjórnmálamenn í löndum sem hafa orðið fyrir mikilli innspýtingu vegna vaxtamunarviðskpta geri sér ekki grein fyrir hættunni sem geti fylgt því vindi skyndilega ofan af slíkum viðskiptum. Rato nefndi sérstaklega lönd eins og Lettland, Kóreu, Brasilíu og Tyrkland í þessu samhengi.


En það er ekki eingöngu efast um ósveigjanlega peningamálastefnu meðal einstakra aðildarríkja ESB sem ekki hafa tekið upp evru. Hættumerki eru einnig til staðar í rúmenska hagkerfinu en þar í landi er gjaldmiðillinn látinn fljóta. Ýmis merki eru um ofþenslu í hagkerfinu og stjórnvöld hafa sýnt lítinn pólitískan vilja til þess að draga saman seglin í þeim tilgangi að stemma stigu við henni. Auk þess hafa þau sýnt lítinn vilja til þess að leyfa gjaldmiðli landsins að styrkjast að mati Lucy Bethell, sérfræðingi hjá Royal Bank of Scotland. Slíkt getur vissulega vakið áhuga á stöðutöku fjárfesta gegn gjaldmiðlinum. Um líkurnar á því skal ekki fullyrt, enda telja margir sérfræðingar að mun meiri líkur séu á almennri leiðréttingu á þróunarmörkuðum í stað árása fjárfesta á einstaka gjaldmiðla. Tim Ash telur að hagkerfi við hættumörk, eins og það lettneska, geti komið af stað hræringum og leitt til þess sem hann kallar "árlega vorleiðréttingu á þróunarmörkuðum."