Erlendir spákaupmenn eru farnir að sýna íslensku krónunni meiri áhuga og er ástæðan sú það háa vaxtastig sem er hér á landi og mikill vaxtamunar gagnvart útlöndum.

Í frétt frá AFX Asia segir Ian Stannard sérfræðingur hjá BNP Paribas að áhugi fjárfesta fyrir hávaxtagjaldmiðlum eins og íslensku krónunni hafi aukist nokkuð upp á síðkastið og hefur hjálpað til í því sambandi minni áhugi spákaupmanna fyrir gjaldmiðlum Suður-Ameríkuríkja eftir nýlegar vaxtalækkanir í Brasilíu og Mexíkó. "Fjárfestar eru að leita að öðrum möguleikum og krónan hefur vakið áhuga fjárfesta," sagði hann.

"Háir vextir á Íslandi eru líklegir til að styðja við frekari styrkingu krónunnar gagnvart evrunni til loka þessa árs og byrjun þess næsta," segir Kristján Kasikov, gjaldeyrissérfræðingur hjá CALYON, í samtali við AFX. Hann spáir því að evran muni fara niður í 71 krónu í lok þessa árs en Stannard spáir því að hún fari ögn lægra eða í 70,5 krónur.

Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum að erlendir spákaupmenn hafa verið að taka gríðarlega stóra stöðu í krónunni að undanförnu í gegnum kaup sín á þeim skuldabréfum sem erlendir aðilar hafa verið að gefa út hér á landi. Í dag nemur upphæðin rúmum 71 milljarði króna og hefur þetta gjaldeyrisinnstreymi átt mikinn þátt í því að krónan er í sögulegu hámarki sínu um þessar mundir. Þessi staða í krónunni er þó ekki til allrar framtíðar því búast má við að þetta gjaldeyrisinnstreymi breytist í gjaldeyrisútstreymi á allranæstu árum þegar bréfin fara á gjalddaga.

Það eru töluverðar líkur á því að krónan geti haldið áfram að styrkjast enda hljómuðu Peningamál Seðlabankans á föstudaginn á þann hátt að vextir verði sennilega hækkaðir nokkuð meira og þeim verði haldið lengur háum en fjármálamarkaðurinn hefur verið að vænta.