Kastljós fjárfesta kann að beinast að norsku krónunni á næstunni í leit þeirra að hávaxtamyntum í vaxtamunarviðskiptum. Fastlega er búist að seðlabankinn þar í landi haldi áfram að hækka stýrivexti til þess að stemma stigu við verðbólgu og að vextir þurfi að hækka mun hraðar en í öðrum hagkerfum sem eru í þenslu. Seðlabanki landsins hefur hækkað vexti sex sinnum síðan sumarið 2005 og væntingar eru um að vextir verði komnir í fimm prósent við lok þessa árs.

Vaxtahækkanir í Noregi hafa gert það að verkum að krónan er aðeins á eftir brasilíska realnum og ástralska dalnum, í hópi þeirra gjaldmiðla sem hafa styrkst mest á árinu, sé miðað við sautján veltumestu gjaldmiðla heims. Talið er að krónan muni halda áfram að styrkjast vegna vaxandi áhuga fjárfesta sem stunda vaxtamunarviðskipti á að fjármagna stöðutöku í norskum krónum með japönskum jenum.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.