„Sko, þetta er Ísland,“ sagði forsætisráðherrann Katrín Jakobsdóttir þegar skjálftinn reið yfir. Ráðherrann var í viðtali við Washington Post þegar allt tók að hristast og skjálfa og ljóst að henni var brugðið, en hægt er að sjá viðbrögð hennar á mínútu 3:06 í 5 mínútna myndbandinu hér að ofan.

Fyrstu mælingar benda til þess að skjálftinn hafi verið 5,7 að styrk en upptök hans voru um sex kílómetra vestur af Kleifarvatni. Skjálftinn fannst víðsvegar á suðvesturhorninu.

Katrín hafði verið fengin í viðtal til að ræða um viðbrögð Íslendinga við faraldri kórónaveirunnar og aðgerðir sem gripið hafði verið til hér á landi til að sporna við honum. Hér að neðan má sjá viðtalið í heild sinni.


Hér að neðan má einnig sjá viðbrögð þingmannsins Helga Hrafns Gunnarssonar og þingforsetans Steingríms J. Sigfússonar við skjálftanum. Sá fyrrnefndi var í pontu og stökk á brott þegar allt fór á flakk. Steingrímur sat hins vegar sem fastast og bað menn um að sýna stillingu. Helgi Hrafn ætlar að hætta á þingi eftir þetta kjörtímabil en þingforsetinn og jarðfræðingurinn hefur setið á þingi síðan á síðustu öld og því öllu vanur.