Fjárfestingasjóður í eigu katarska ríkisins hefur sett markið á hlutabréfakaup í evrópskum bönkum, þar á meðal í rússneska VTB bankanum og í hinum þýska Deutsche Bank, að því er segir í frétt Financial Times.

VTB, sem er næststærsti banki Rússlands, er í vikunni með 3,2 milljarða dala hlutafjárútboð og ætlar katarski sjóðurinn að kaupa bréf í bankanum fyrir allt að einn milljarð dala. Ef af verður mun sjóðurinn eiga um 5% í rússneska bankanum.

Fyrir þremur vikum seldi Deutsche Bank hlutabréf fyrir 2,9 milljarða dala til að bæta eiginfjárstöðu sína. Fyrst stóðu markaðsaðilar í þeirri trú að þýskir fjárfestar hefðu keypt bróðurpartinn af bréfunum, en samkvæmt frétt FT var katarski sjóðurinn stór kaupandi í útboðinu.

Alls hefur sjóðurinn, sem ber nafnið Qatar Investment Authority, sankað að sér bankabréfum að verðmæti ríflega 10 milljarða dala á undanförnum fimm árum. Þar á meðal eru bréf í rótgrónum vestrænum bönkum eins og Barclays og Credit Suisse en einnig í bönkum í Kína, Brasilíu og Rússlandi.