Katar íhugar að gera yfirtökutilboð í norrænu kauphöllina OMX, sem á og rekur kauphallir á Norðurlöndunum og í Eystrarsaltsríkjunum. Þetta kom fram í viðtali við forsætisráðherra Katar, Sheikh Hamad bin Jassim, við bandarísku viðskiptasjónvarpsstöðina CNBC á þriðjudaginn.

"Við erum alvarlega að hugsa um þetta", sagði Sheikh Hamad, en það er "hins vegar margt sem flækir málið" og vísaði hann til þess samkomulags sem bandaríska kauphallarfyrirtækið Nasdaq og kauphöllin í Dubai hafa náð, við helstu hluthafa OMX. Þessi ummæli Sheikh Hamad koma á sama tíma og Qatar Investment Authority - fjárfestingaarmur katarskra stjórnvalda - hefur óskað eftir heimild frá sænska fjármálaeftirlitinu til að kaupa stærri hlut en 10% í OMX, sem gæti leitt til allt að 100% eignarhlutar í kauphöllinni.

Katar keypti í síðasta mánuði 9,98% hlut í OMX. Ætli stjórnvöld hins vegar að koma í veg fyrir yfirtökuáform Nasdaq og Dubai verða þau að koma fram með tilboð sem hljóðar upp á minnsta kosti 303 sænskar krónur á hlut. Gengi hlutabréfa í OMX hélt áfram að hækka í gær og hefur markaðsvirði kauphallarinnar næstum tvöfaldast það sem af er þessu ári.

Fjármálaskýrendur segja að kaup katarska fjárfestingasjóðsins í OMX - ásamt kaupum á 20% hlut í kauphöllinni í London - endurspegli þá baráttu sem á sér stað milli Sameinuðu arabísku furstadæmanna og stjórnvalda í Katar um að koma á fót leiðandi fjármálamiðstöð í Mið-Austurlöndum.