Qatar Investment Authority, fjárfestingarsjóður í eigu þarlendra stjórnvalda, er að byggja upp eignarhlut í svissneska bankanum Credit Suisse og áformar að fjárfesta fyrir allt að 15 milljarða Bandaríkjadala í hlutabréfum í evrópskum og bandarískum bönkum á næstu tólf mánuðum. Frá þessu greindi forsætisráðherra landsins, Sheikh Hamad, í viðtali við Bloomberg-sjónvarpsstöðina á sunnudaginn.

Hann vildi á þessari stundu ekki greina frá því um hversu stóran hlut væri að ræða þar sem kaupunum væri enn ekki lokið, en forsætisráðherrann er jafnframt forstjóri Qatar Investment Authority.