Katar hefur aukið gífurlega við innflutning á vopnum til landsins frá árinu 2015 og er í dag þriðji stærsti innflytjandi heims samkvæmt skýrslu frá breska dómsmálaráðuneytinu . Árið 2015 komst landið í fyrsta sinn á lista þeirra tíu ríkja sem mest flytja inn af vopnum.

Samkvæmt gögnum frá alþjóðlegu friðarrannsóknarstofnuninni í Stokkhólmi jókst vopnainnflutningur til landsins um 282% á milli 2012 og 2016. Þetta kemur fram í frétt á vef Business Insider.

Mið-Austurlönd hafa verið stórtæk í vopnainnflutningi á síðastliðnum árum. Eru Sádí-Arabía, Katar og Sameinuðu arabísku furstadæmin, Írak og Egyptaland öll á meðal þeirra ríkja sem mest flytja inn af vopnum. Sádí-Arabía situr í efsta sæti listans á undan Indlandi og Katar. Þar á eftir koma svo Bandaríkin, Ástralía og Kanada.

Árið 2015 komst Qatar í sjötta sæti listans eftir að hafa aukið innflutning frá Frakklandi, Bandaríkjunum og Ítalíu. Keypti landið meðal annars orustuflugvélar af Frökkum fyrir 7,1 milljarð dollara. Þar að auki samþykkti Donald Trump, forseti Bandaríkjanna að selja vopn til Katar að andvirði 12 milljörðum dollara eftir að Sádí-Arabía, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Barein og Egyptaland slitu stjórnmálasambandi við landið í júní síðastliðnum .