Þjóðarsjóður Katar (Qatar Investment Authority, QIA) hefur tvöfaldað hlut sinn í Credit Suisse og er nú næst stærsti hluthafi svissneska bankans á eftir Saudi National Bank (SNB), stærsta viðskiptabanka Sádi-Arabíu. Financial Times greinir frá.

Þjóðarsjóður Katar tvöfaldaði hlut sinn í lok síðasta árs og á nú nærri 7% hlut í Credit Suisse. Fjárfestar frá Miðausturlöndum hafa verið að gera sig gildandi í hluthafahópi svissneska bankans en SNB á tæplega 10% hlut og Olayan fjölskyldan frá Sádi-Arabíu fer með 3% hlut. Samtals eiga þessir þrír fjárfestar frá Miðausturlöndum yfir 20% hlut í Credit Suisse.

Eftir röð hneykslismála réðst bankinn í 4 milljarða franka hlutafjáraukningu í október síðastliðnum til að fjármagna umfangsmikla endurskipulagningu á rekstrinum. QIA og SNB tóku báðir þátt í hlutafjáraukningunni.

Bandarískir hluthafar hafa aftur á móti verið að minnka hlut sinn í bankanum. Fjárfestingarfélagið Harris Associates frá Chicago var stærsti hluthafi Credit Suisse með 10% hlut fyrir nokkrum mánuðum en á nú minna en 5% í bankanum.