Delta Two fjárfestingarsjóðurinn, sem er að stærstum hluta í eigu konungsfjölskyldunnar í Katar, hefur í hyggju að gera yfirtökutilboð í bresku verslunarkeðjuna Sainsbury í kjölfar þess að sjóðurinn jók eignahlut sinn í félaginu upp í 25% síðastliðinn föstudag. Þetta kemur fram í frétt breska dagblaðsins The Sunday Telegraph.

Í frétt Telegraph er haft eftir heimildarmönnum blaðsins að ráðgjafar Delta, Dresdner Kleinwort og Credit Suisse, hafi verið að leita eftir áhugasömum fjárfestingarbönkum sem væru reiðubúnir til að fjármagna að hluta til hugsanlega yfirtöku á Sainsbury. Það er talið að viðræður þessa efnis hafi staðið yfir undanfarnar fjórur vikur, að því er fram kemur í frétt Telegraph.

Hlutabréf í þessari þriðju stærstu matvörukeðju Bretlands hækkuðu fyrst í gærmorgun um 1,4% eftir að fréttir af hugsanlegri yfirtöku í félagið bárust, en stuttu áður en hlutabréfamarkaðir í London lokuðu í gær höfðu bréfin aftur á móti lækkað um tæplega eitt prósent í viðskiptum dagsins. Samtals hafa bréf Sainsbury hækkað um áttatíu prósent á aðeins einu ári.

Í frétt Bloomberg fréttaveitunnar er haft eftir sérfræðingum að markaðsaðilar telji sennilegt að yfirtökutilboð Delta verði að veruleika. Hins vegar mun slíkt tilboð þurfa að vera ekki lægra heldur en 600 pens á hvern hlut í félaginu. Þreifingar einkafjárfestingarsjóðsins CVC - og annarra fyrirtækja sem voru í samstarfi við sjóðinn - um að yfirtaka Sainsbury í aprílmánuði fóru út um þúfur sökum þess að talið var að stjórnendur verslunarkeðjunnar vildu ekki samþykkja yfirtökutilboð undir 600 pensum á hlut, en tilboð CVC hljóðaði upp á 582 pens á hlut.