Helstu hlutabréfavísitölur beggja vegna Atlantsála hafa hækkað hressilega í dag en fjárfestar telja líkur á að fremur neikvæðar hagtölur á evrusvæðinu muni þvinga evrópska seðlabankann til að lækka stýrivexti í næstu viku.

Bandaríska dagblaðið The New York Times segir um málið á vef sínum að í framleiðnivísitölu Markit sem birt var í dag séu vísbendingar um að samdráttarskeið geti runnið upp í Þýskalandi innan skamms. Væntingarvísitalan fór úr 50,6 punktum í 48,8 punkta en allt undir 50 punktum þykir benda til samdráttar.

CAC-vísitalan í Frakklandi rauk upp um rúm 3% í dag en aðrar vísitölur í öðrum löndum, s.s. í Bandaríkjunum, fóru að jafnaði upp um 1% í viðskiptum dagsins.