*

laugardagur, 8. maí 2021
Fólk 4. janúar 2021 11:05

Katla Hrund fær stöðuhækkun

Katla Hrund Karlsdóttir er nýr aðstoðarframkvæmdastjóri H:N Markaðssamskipta, þar sem hún hefur verið viðskiptastjóri.

Ritstjórn
Katla Hrund Karlsdóttir hefur verið viðskiptastjóri auglýsingastofunnar H:N Markaðssamskipta síðustu tvö ár.
Aðsend mynd

Katla Hrund Karlsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarframkvæmdastjóri auglýsingastofunnar H:N Markaðssamskipta.

Katla hefur starfað sem viðskiptastjóri á H:N í rúmlega tvö ár og sinnt mikilvægri stefnumótun og markaðsráðgjöf fyrir Kviku banka, Auði dóttir Kviku, Síbs, Nox Medical, Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbæ og fleiri.

Samhliða hefur hún sinnt kennslu í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, en hún er með BS-próf í sálfræði og MA-gráðu í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá skólanum.

„Ég er mjög þakklát fyrir þá gríðarlegu reynslu, tækifæri og ekki síst traustið sem ég hef fengið undanfarin ár. Nýju hlutverki fylgja nýjar áskoranir sem leggjast afar vel í mig,” segir Katla Hrund. „H:N Markaðssamskipti er ein elsta auglýsingastofa landsins og það eru afskaplega spennandi tímar framundan hjá okkur enda höfum við aldrei haft jafn fjölbreyttan hóp viðskiptavina.”

H:N Markaðssamskipti var stofnuð árið 1990 og fagnaði því 30 ára afmæli á síðasta ári. Stofan hefur unnið Áruna (árangursverðlaun Ímark) í sjö skipti af þeim tólf sem þau hafa verið veitt. Þá hefur stofan verið leiðandi hér á landi í notkun nýrrar tækni svo sem viðbættum veruleika (e. augmented reality) og sýndarveruleika (e. virtual reality).

„Árið 2021 stefnir í að verða eitt stærsta ár í sögu H:N Markaðssamskipta og því skiptir það stofuna og starfsfólkið gríðarlega miklu máli að hafa gott fólk eins og Kötlu í fararbroddi,“ segir Kristján Hjálmarsson, framkvæmdastjóri H:N Markaðssamskipta.